Header Paragraph

Ráðstefnustyrkir Heimspekistofnunar

Image

Heimspekistofnun Háskóla Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki til að halda ráðstefnur þar sem meginfjöllunarefnið er heimspeki. Ráðstefnurnar sem styrktar eru skulu vera haldnar á Íslandi á þessu ári eða því næsta. Er þetta í samræmi við nýlega samþykkta stefnu Heimspekistofnunar, en þar segir meðal annars:

„Stofnunin eða aðildarfélagar í samvinnu við stofnun gangast fyrir ráðstefnum, eftir atvikum í samvinnu við aðra, þar á meðal alþjóðlegum ráðstefnum í samvinnu við innlenda eða erlenda aðila. Um kostnaðarþátttöku Heimspekistofnunar eða styrkveitingu af hálfu stofnunarinnar fer eftir ákvörðun stjórnar í samráði við verkefnastjóra Hugvísindastofnunar. Umsóknir um styrk til ráðstefnuhalds skulu berast með hæfilegum fyrirvara og skal þeim fylgja rökstuðningur og fjárhagsáætlun. Að öðrum kosti verða þær ekki teknar til greina. Styrki Heimspekistofnun ráðstefnuhald skal þess getið í kynningu ráðstefnunnar  hvort sem Heimspekistofnun hýsir ráðstefnuna eða ekki. Heimspekistofnun tekur hvorki á sig vinnuframlag né fjárhagslegar skuldbindingar umfram það sem fram kemur við styrkveitingu.“

Umsóknir skulu berast fyrir 1. apríl næstkomandi og þeim skal skilað í tölvupósti til stjórnarformanns Heimspekistofnunar á netfangið fud@hi.is. Rökstyðja þarf umbeðna styrkupphæð sem getur mest numið 500 þúsund krónur fyrir hverja ráðstefnu. Ekki er veittur styrkur til launa forsvarsmanna ráðstefnu, né vegna þóknunar til fyrirlesara. Heimspekistofnun áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Notast skal við sérstakt eyðublað sem hlaða má niður með því að smella hér.