Header Paragraph

Siggasophy er nýtt hlaðvarp um heimspeki

Image

Siggasophy er nýtt hlaðvarp í umsjón Sigríðar Þorgeirsdóttur, prófessors í heimspeki við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Umfjöllunarefni hlaðvarpsins er heimspeki, hennar eigin hugmynd um víða heimspeki. „Vegna þess að mig langar að koma heimspeki og heimspekilegum þankagangi út til fleiri en bara fagheimspekinga. Ég vil hafa viðtalsþættina áheyrilega á þann hátt að þetta séu ekki bara fyrir fram spurningar og undirbúin svör. Sigguspeki er ekki gáfumannaleikur. Helst vil ég að hugsun geti „gerst“ í þáttunum, að ég og viðmælandi hugsum saman. Auk þess stefni ég á að gera þætti þar sem ég kynni einstök heimspekileg málefni og fílósófera þá bara sjálf. Ég er jú líka bara að skemmta sjálfri mér,“ segir Sigríður.

Viðmælendur Sigríðar í hlaðvarpinu eru ekki allt heimspekingar heldur fólk héðan og þaðan sem fílósóferar og má þar t.d. nefna Rán Flygenring, rithöfund og myndlistarkonu, og Sigríði Hagalín Björnsdóttur, rithöfund og fréttakonu.

Sigríður hefur birt átta þætti sem má nálgast á hlaðvarpsveitum, þ. á m. á Spotify. Hún segist hafa valið þessa miðlunarleið vegna þess að sér virðist sem mörg njóti þess að hlusta á hlaðvörp. „Fólk fer út að ganga og er með þátt í eyrunum. Fólki finnst það gefa sér eitthvað annað en að horfa á myndefni. Kannski er meira rým fyrir eigin hugsun og ímyndunarafl þegar bara er hlustað.  Þegar við kveikjum á sjónvarpi, sem er meira umlykjandi miðill, slökkvum við á okkur sjálfum. Eftir langan dag getum við haft þörf fyrir það. Þegar við hlustum á hlaðvarpsþátt og reynum að heyra og skilja förum við að heyra í okkar eigin hugsunum. Það er eitthvað róandi við að hlusta,“ segir Sigríður.

Image