Header Paragraph

Útgáfustyrkir Heimspekistofnunar

Image

Heimspekistofnun Háskóla Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki til útgáfu heimspekirita meðal aðildarfélaga sinna. Verkin sem styrkt eru skulu vera gefin út af viðurkenndu forlagi á Íslandi á þessu ári eða því næsta. Er þetta í samræmi við nýlega samþykkta stefnu Heimspekistofnunar, en þar segir meðal annars:

„Heimspekistofnun gefur ekki út bækur á eigin kostnað heldur veitir útgáfustyrki. Fjárhæð styrks fer eftir umfangi rits og fjárhag stofnunarinnar hverju sinni. Styrksins skal getið í inngangi rits eða á annan hátt í samráði við stjórn. Heimspekistofnun tekur hvorki á sig vinnuframlag né fjárhagslegar skuldbindingar umfram það sem styrkveitingunni nemur. Rétt til að sækja um útgáfustyrk eiga aðildarfélagar Heimspekistofnunar. Auk þess styrkir Heimspekistofnun útgáfu tímaritsins Hugur: Tímarit um heimspeki sem er eina fræðilega tímaritið um heimspeki sem gefið er út á Íslandi. Auglýst verður eftir umsóknum um útgáfustyrki meðal aðildarfélaga Heimspekistofnunar og umsóknarfrestur tilgreindur. Sérstök nefnd, skipuð tveim aðildarfélögum sem kosnir eru til þriggja ára í senn, fjallar um umsóknirnar en stjórn stofnunarinnar ákveður styrkveitinguna í samráði við verkefnastjóra Hugvísindastofnunar. Ákvörðun um styrkveitingu skal tekin á málefnalegum forsendum. Fulltrúar í stjórn eða ritnefnd geta ekki tekið ákvörðun um styrkveitingu til eigin rita.“

Umsóknir skulu berast fyrir 15. apríl næstkomandi og þeim skal skilað í tölvupósti til stjórnarformanns Heimspekistofnunar á netfangið fud@hi.is. Með umsóknunum skal fylgja drög að því verki sem sótt er um styrk fyrir. Rökstyðja þarf umbeðna styrkupphæð sem getur mest numið 750 þúsund krónur fyrir hvert verk. Styrkjum er ekki ætlað að greiða fyrir laun eða vinnuframlag höfunda eða ritstjóra heldur kostnað við útgáfu, svo sem vegna prentunar, uppsetningar og prófarkalesturs. Umsækjendur skulu vera höfundar eða ritstjórar verksins og þeir skulu vera fullgildir aðildarfélagar Heimspekistofnunar þegar umsókninni er skilað inn. Heimspekistofnun áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum. Styrkur fellur niður ef styrkt verk kemur ekki út fyrir árslok 2025.

Notast skal við sérstakt eyðublað sem hlaða má niður með því að smella hér.